Selfoss þarf sigur í lokaumferðinni

Selfyssingar unnu öruggan sigur á Fjölni í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 28-16. Selfyssingar færðust upp í 4. sætið með sigrinum en þurfa sigur í lokaumferðinni, ætli þeir sér að halda sætinu.

Liðið í 4. sæti fer í úrslitakeppnina og berjast Selfyssingar við Eyjamenn um að ná sætinu. ÍBV gerði jafntefli við Stjörnuna í kvöld, 25-25, og er stigi á eftir Selfyssingum.

Eyjamenn mæta Fjölni í lokaumferðinni og teljast sigurstranglegri þar, en Fjölnir hefur ekki unnið leik í vetur. Selfoss mætir hins vegar Víkingi í lokaumferðinni og verður liðið að ná sigri til að tryggja 4. sætið, eins og vita mátti fyrir leikinn í kvöld. Ljúki Selfoss og ÍBV keppni jöfn að stigum hafa Eyjamenn betur í innbyrðis leikjum. Lokaumferðin fer fram föstudaginn 30. mars.

Selfyssingar höfðu algjöra yfirburði gegn Fjölni í kvöld og leiddu m.a. 16-6 í hálfleik. Seinni hálfleikur var jafnari en Selfyssingar höfðu örugg tök á leiknum.

Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með átta mörk og næstur honum kom Matthías Halldórsson með sjö mörk og mjög fínan leik. Guðni Ingvarsson skoraði fimm mörk, Hörður Bjarnarson fjögur og þeir Trausti Eiríksson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu báðir tvö mörk.

Helgi Hlynsson var heitur í markinu og varði 27 skot, þar af 21 í fyrri hálfleik þar sem hann var með ótrúlega tölfræði eða 77% markvörslu. Andri Einarsson stóð sig sömuleiðis vel, varði sex skot og var með 54% markvörslu.

Fyrri greinViltu teikna? – Guðrún Tryggvadóttir leiðbeinir
Næsta greinGlundroði komst áfram