Selfoss afgreiddi toppliðið – tæpt tap hjá Mílunni

Selfoss vann öruggan sigur á toppliði Stjörnunnar og Mílan tapaði naumlega fyrir Fjölni í leikjum kvöldsins í 1. deild karla í handbolta.

Selfoss hafði mikla yfirburði gegn Stjörnunni í fyrri hálfleik þegar liðin mættust í Vallaskóla í kvöld. Selfoss komst í 6-1 og leiddi 9-4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá tók við frábær kafli hjá heimamönnum sem leiddu 18-8 í hálfleik.

Leikurinn var í öruggum höndum Selfyssinga í síðari hálfleik og lokatölur urðu 32-24.

Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 7, Elvar Örn Jónsson 5, Hergeir Grímsson 4, Alexander Egan 3, Egidijus Mikalonis 2 og þeir Rúnar Hjálmarsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu 1 mark hvor.

Minnsti mögulegi munur hjá Mílunni
Mílan tapaði 22-21 þegar liðið heimsótti Fjölni í stórskemmtilegum leik í Grafarvogi í kvöld.

Fjölnir hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik, komst í 7-4 eftir tíu mínútur en Mílan minnkaði muninn niður í eitt mark fyrir hálfleik, 12-11.

Mílan jafnaði 13-13 í upphafi síðari hálfleiks en þá tóku Fjölnismenn aftur við sér. Heimamenn höfðu 2-3 marka forskot lengst af en á síðustu fimm mínútunum minnkaði Mílan muninn í eitt mark, 22-21 og þær urðu lokatölur leiksins. Mílan átti síðustu sókn leiksins en náði ekki að jafna.

Atli Kristinsson var markahæstur í liði Mílunnar með 9/2 mörk, Magnús Már Magnússon skoraði 5, Gunnar Páll Júlíusson 2 og þeir Sigurður Már Guðmundsson, Sævar Ingi Eiðsson, Einar Sindri Ólafsson og Eyþór Jónsson skoruðu allir 1 mark.

Ástgeir Sigmarsson átti mjög góðan leik, varði 22 skot í marki Mílunnar og var með 51% markvörslu.

Eftir leiki kvöldsins er Selfoss í 2.-3. sæti með 12 stig, eins og Fjölnir en Mílan er í 5. sæti með 6 stig.

Fyrri greinGóður sigur á heimavelli
Næsta greinGunnar endurkjörinn formaður