Selfoss áfram eftir rosalegar lokasekúndur

Elvar Örn Jónsson átti frábæran leik í kvöld og skoraði 12 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit bikarkeppni karla í handbolta eftir 31-32 sigur á Fram á útivelli í kvöld.

Framarar litu betur út í fyrri hálfleik, komust í 6-2 í upphafi leiks og náðu mest fimm marka forskoti, 10-5 þegar nokkuð var liðið á fyrri hálfleikinn. Selfyssingar gyrtu sig þá í brók og minnkuðu muninn í tvö mörk, 16-14 í leikhléi.

Fram hélt forskotinu þangað til rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þá breyttu Selfyssingar stöðunni úr 21-18 í 21-21. Fram náði aftur tveggja marka forskoti en Selfoss jafnaði enn á ný, 25:25 þegar rúmar tólf mínútur voru eftir af leiknum.

Eftir það var jafnt á öllum tölum og Framarar á undan að skora. Frumkvæðið fór hins vegar yfir til Selfyssinga þegar sjö mínútur voru eftir, þeir komust þá einu marki yfir en Fram náði alltaf að jafna.

Lokamínútan var rosaleg og ekki fyrir hjartveika að fylgjast með. Selfossvörnin varði skot Fram í stöðunni 31-32 þegar 40 sekúndur voru eftir og í kjölfarið tókst Selfyssingum að hanga á boltanum gegn maður-á-mann vörn Framara þar til Elvar Örn Jónsson fékk dæmda á sig línu með 9 sekúndur eftir á klukkunni.

Framarar geystust í sókn og fengu opið skot á lokasekúndunni en Sölvi Ólafsson tók sig til, átti geggjaða markvörslu og tryggði Selfyssingum sigurinn.

Elvar fór á kostum
Elvar Örn Jónsson átti stórleik fyrir Selfoss í kvöld, var markahæstur með 12/7 mörk úr 16 skotum og 5 stoðsendingar. Þá var hann öflugur í vörninni eins og oft áður, með 4 brotin fríköst.

Haukur Þrastarson skoraði 6 mörk og Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 5 mörk og var með 100% skotnýtingu. Hergeir Grímsson skoraði 4, Atli Ævar Ingólfsson nýtti öll sín skot og skoraði 3 og þeir Árni Steinn Steinþórsson og Guðni Ingvarsson skoruðu sitt markið hvor.

Sölvi Ólafsson varði 8 skot í marki Selfoss og var með 27% markvörslu og Pawel Kiepulski varði 3 skot og var með 23% markvörslu.

Fyrri grein„Fórum undir borð og byrjuðum að skrifa“
Næsta grein„Krefjandi en einnig mjög skemmtilegur og gefandi málaflokkur“