Selfoss og Haukar gerðu 1-1 jafntefli í 1. deild karla í knattspyrnu á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Eftir leiki kvöldsins er ljóst að Selfoss heldur sæti sínu í deildinni.
Fyrri hálfleikur var markalaus en Haukar komust yfir á 53. mínútu. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson jafnaði metin fyrir Selfoss sjö mínútum síðar með góðu marki. Eftir klafs í vítateig Hauka barst boltinn út á Þorstein sem tók hann á lofti og þrumaði honum upp í samskeytin.
Þar við sat og hvorugu liðinu tókst að bæta við marki þrátt fyrir ágætar sóknir af beggja hálfu.
Þar sem KV tapaði fyrir ÍA í kvöld er ljóst að Selfyssingar eiga ekki lengur á hættu að falla niður í 2. deild. ÍA og Leiknir tryggðu sér sæti í Pepsi-deildinni í kvöld með því að vinna leiki kvöldsins.
Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 26 stig en aðeins skilja fimm stig að Selfyssinga og Þróttara sem sitja í 4. sæti.
Næsti leikur Selfoss er á JÁVERK-vellinum laugardaginn 13. september gegn KA.