Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit í bikarkeppni kvenna í handknattleik eftir öruggan 28-33 sigur á Fjölni á útivelli í kvöld.
Fjölniskonur byrjuðu vel í leiknum og leiddu 6-5 eftir tólf mínútna leik. Þá kom góður kafli hjá Selfyssingum sem skoruðu sjö mörk gegn einu á sex mínútna kafla og breyttu stöðunni í 7-12. Staðan var 12-19 í leikhléi.
Munurinn varð mestur tíu mörk í seinni hálfleik, 16-26, og þó að Fjölnir næði að klóra í bakkann var forysta þeirra vínrauðu aldrei í hættu. Að lokum skildu fimm mörk liðin að, 28-33.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir og Harpa Brynjarsdóttir skoruðu báðar 5 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 4/1, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 4 og Elín Krista Sigurðardóttir 2. Hulda Dís Þrastardóttir, Katla María Magnúsdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir, Sarah Boye og SIgríður Lilja Sigurðardóttir skoruðu allar 1 mark.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 15 skot í marki Selfoss og var með 44% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 2 skot og var með 18% markvörslu.