Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit í bikarkeppni karla í körfubolta eftir öruggan sigur á ÍA á útivelli í kvöld.
Selfyssingar léku vel í fyrri hálfleik og voru komnir með ágætt forskot í leikhléinu, 32-45. Seinni hálfleikurinn var jafnari en Selfyssingar héldu forskotinu örugglega og sigruðu að lokum 63-77.
Selfyssingar eru þar með komnir í 16-liða úrslitin og mæta þar Hetti sem sló Þór Þorlákshöfn úr leik í gærkvöldi. Sextán liða úrslitin fara fram 30.-31. október.
Arnaldur Grímsson var stigahæstur Selfyssinga með 15 stig og 9 fráköst og Srdan Stojanovic átti sömuleiðis góðan leik með 13 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá skoraði Gerald Robinson 13 stig og tók 7 fráköst og Ísak Júlíus Perdue skoraði 12 stig og tók 10 fráköst.