Selfoss áfram í bikarnum

Ísak Júlíus Perdue var nálægt þrefaldri tvennu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit í bikarkeppni karla í körfubolta eftir nauman sigur á Fjölni í spennuleik á Selfossi í kvöld. Hamar og Laugdælir eru úr leik.

Í kvöld lauk 32-liða úrslitunum og var mesta spennan á Selfossi þar sem heimamenn mættu Fjölni í 1. deildarslag. Leikurinn var í járnum allan tímann, gestirnir byrjuðu betur en Selfoss átti 2. leikhlutann og staðan í hálfleik var 42-41. Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleiknum en Selfyssingar voru sterkari á lokakaflanum og sigruðu 94-91.

Follie Bogan fór mikinn í liði Selfoss með 38 stig og 12 fráköst og Ísak Júlíus Perdue daðraði við þrefalda tvennu með 11 stig, 10 stoðsendingar og 9 fráköst.

Það var öllu minni spenna í Hveragerði þar sem Hamar tók á móti úrvalsdeildarliði Keflavíkur. Gestirnir höfðu undirtökin frá upphafi og leiddu í leikhléi, 39-49. Hamar hélt í horfinu í 3. leikhluta en í síðasta fjórðungnum juku gestirnir forskotið aftur og sigruðu að lokum 85-101.

Jaeden King var stigahæstur hjá Hamri með 30 stig og 9 fráköst og Ragnar Nathanaelsson, Jose Medina og Fotios Lampropoulos skiluðu allir góðu framlagi en Ragnar stóð þeim fremstur með 12 stig og 12 fráköst.

Á Laugarvatni tóku Laugdælir, sem leika í 2. deildinni, á móti 1. deildarliði Breiðabliks. Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en síðan tóku Blikar yfir og juku forskotið jafnt og þétt. Staðan í hálfleik var 40-58 en Laugdælir skoruðu aðeins 25 stig í seinni hálfleik og lokatölur leiksins urðu 65-113.

Babatunde Ajieke var stigahæstur hjá Laugdælum með 15 stig og 9 fráköst og Kári Daníelsson skoraði 12 stig og tók 7 fráköst.

Dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á miðvikudaginn og þar verða Selfyssingar í pottinum ásamt Þorlákshafnar-Þórsurum sem sátu hjá í 32-liða úrslitunum. Önnur lið í 16-liða úrslitum eru Snæfell, Breiðablik, Tindastóll, Álftanes, Keflavík, Valur, Grindavík, Njarðvík, Haukar, Sindri, Höttur, Stjarnan, KR og KV.

Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 38/12 fráköst, Vojtéch Novák 14/8 fráköst/7 stoðsendingar, Tristan Máni Morthens 11, Ísak Júlíus Perdue 11/9 fráköst/10 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 9, Ari Hrannar Bjarmason 5/5 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 3, Birkir Máni Sigurðarson 3, Svavar Ingi Stefánsson 2 fráköst/1 stoðsending.

Tölfræði Hamars: Jaeden King 30/9 fráköst, Jose Medina 20/15 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 12/12 fráköst, Fotios Lampropoulos 12/6 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 3, Arnar Dagur Daðason 3, Björn Ásgeir Ásgeirsson 3, Daníel Sigmar Kristjánsson 2, Egill Þór Friðriksson 4 fráköst, Birkir Máni Daðason 2 fráköst/1 stoðsending, Kristófer Kató Kristófersson 1 stoðsending.

Tölfræði Laugdæla: Babatunde Ajike 15/9 fráköst, Kári Daníelsson 12/7 fráköst, Óskar Már Óskarsson 11/4 fráköst, Logi Smárason 7, Ingvar Jökull Sölvason 7, Birkir Smári Ottósson 5, Magnús Þór Daníelsson 4/4 fráköst, Sigurður Emil Pálsson 4, Óskar Ingi Eyþórsson 3 fráköst/1 stoðsending, Jakub Lenda 3 fráköst.

Fyrri greinÓvenjuleg hveravirkni á Geysissvæðinu
Næsta greinÁlfheiður sækist ekki eftir 1. sætinu