Selfoss áfram í Evrópubikarnum

Hergeir Grímsson skoraði fjögur mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 2. umferð Evrópubikars karla í handbolta þrátt fyrir 28-28 jafntefli gegn Kopřivnice í seinni leik liðanna í Tékklandi í dag.

Selfoss vann fyrri leikinn 31-25 og viðureignina samtals 59-53. Leikurinn í dag var heimaleikur Selfoss en eins og sá fyrri var hann leikinn í hörkustemningu í íþróttahöllinni í Kopřivnice.

Kopřivnice tók frumkvæðið á upphafsmínútum leiksins en munurinn var yfirleitt aldrei meira en eitt mark. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar kom góður kafli hjá Selfyssingum sem breyttu stöðunni úr 9-10 í 12-10 en Tékkarnir tóku aftur við sér undir lokin og jöfnuðu 14-14 áður en hálfleiksflautan gall.

Hörkuslagur í seinni hálfleik
Seinni hálfleikurinn var í járnum allan tímann og hart barist, raunar svo hart að þrjú rauð spjöld fóru á loft og tveggja mínútna brottvísanirnar urðu sextán talsins áður en yfir lauk. Á tímabili voru liðin aðeins með þrjá sóknarmenn inni á vellinum og miklar tafir voru á leiknum á meðan dómararnir þurftu að bera saman bækur sínar eða þegar sárþjáðir leikmenn tékkneska liðsins þurftu aðhlynningu.

Á 38. mínútu fékk Domagoj Grizelj, leikmaður Koprivnice rauða spjaldið og átta mínútum síðar fékk Hergeir Grímsson sína þriðju tveggja mínútna brottvísun og þar með rautt. Þriðja rauða spjaldið kom svo á lokamínútunni þegar David Zima, leikmaður Kopřivnice, fékk sína þriðju tveggja mínútna brottvísun.

Munurinn á liðunum var aldrei mikill í seinni hálfleiknum, þau skiptust á um að hafa forystuna þangað til tíu mínútur voru eftir en þá skoruðu Tékkarnir þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 25-28. Selfyssingar svöruðu hins vegar vel fyrir sig á lokamínútunum, sem voru æsispennandi. Þegar nokkrar sekúndur voru eftir, í stöðunni 27-28, varði Sölvi Ólafsson vítakast og Selfyssingar brunuðu í sókn og fengu víti. Hinn ungi Haukur Páll Hallgrímsson fór ískaldur á vítapunktinn og skoraði og tryggði Selfyssingum jafntefli, 28-28.

Ragnar og Hergeir markahæstir
Ragnar Jóhannsson og Hergeir Grímsson voru markahæstir Selfyssinga í leiknum, en þeir skoruðu báðir 7 mörk. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 5, Alexander Egan 3, Richard Sæþór Sigurðsson og Ísak Gústafsson 2 og þeir Einar Sverrisson og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu sitt markið hvor.

Vilius Rasimas varði 12 skot í marki Selfoss og var með 20% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 2 skot og var með 100% markvörslu.

Selfoss mætir slóvenska liðinu Jeruzalem Ormož í 2. umferð Evrópubikarsins og fara leikirnir fram í október.

Fyrri greinÆgir upp á fleiri mörkum skoruðum
Næsta greinTinna með tíu í fyrsta leik