Selfoss aftur á toppinn

Byrjunarlið Selfoss í leiknum gegn KFG. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss endurheimti toppsætið í 2. deild karla í knattspyrnu þegar liðið fékk Knattspyrnufélag Garðabæjar í heimsókn á JÁVERK-völlinn í kvöld.

Upphafsmínúturnar voru tíðindalitlar en á 8. mínútu kom Ingi Rafn Ingibergsson Selfyssingum yfir með skoti af 35 metra færi eftir glæfralegt úthlaup markvarðar KFG. Ingi lagði boltann glæsilega í tómt markið. Tveimur mínútum síðar fékk Kenan Turudija mjög gott færi en í kjölfarið datt leikurinn nokkuð niður og um miðbik fyrri hálfleiks var lítið að gerast.

Stefán Þór Ágústsson átti góðan leik í marki Selfoss í kvöld og hann varði vel á 26. mínútu þegar Kristján Kristjánsson skaut að marki af stuttu færi. Stefán átti svo mjög góða vörslu á 34. mínútu þegar leikmaður KFG skallaði að marki eftir hornspyrnu og heilt yfir var markvörðurinn ungi öruggur í öllum sínum aðgerðum.

Selfyssingar voru nær því að bæta við marki á lokakafla fyrri hálfleiks en á 32. mínútu björguðu gestirnir á línu eftir góða tilraun Hrvoje Tocik og á 43. mínútu slapp Ingi Rafn einn innfyrir en Tuta í marki KFG varði glæsilega í horn. 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var aðeins rólegri en Selfyssingar stýrðu ferðinni og gestirnir fengu ekki færi. Ingi Rafn fékk algjört dauðafæri á 60. mínútu en vippaði yfir opið markið en hann gerði hins vegar vel á 68. mínútu þegar hann lagði upp annað mark Selfoss með fyrirgjöf frá hægri. Þormar Elvarsson mætti ákveðinn á nærstöngina og potaði boltanum af harðfylgi í netið.

Selfoss hefði getað bætt við mörkum á lokakaflanum en 2-0 var góð niðurstaða gegn spræku liði KFG og með sigrinum endurheimtu Selfyssingar efsta sætið, hafa 13 stig eins og Víðir – en betra markahlutfall.

Fyrri greinStokkseyringar komu fjötrum á Fenri
Næsta greinDagur í 9. sæti á NM