Selfyssingar tylltu sér á nýjan leik í toppsæti 2. deildar karla í knattspyrnu með 4-2 sigri á Tindastóli á heimavelli í kvöld.
Gestirnir voru líklegri framan af leik og Stefán Þór Ágústsson varði tvívegis vel í marki Selfoss áður en Þór Llorens Þórðarson kom Selfyssingum yfir með marki úr aukaspyrnu á 18. mínútu.
Þór lagði svo upp annað mark Selfoss á 39. mínútu þegar hann átti frábæra sendingu inn á vítateiginn á Hrvoje Tokic sem skoraði af stuttu færi. Selfoss hefði getað bætt við fleiri mörkum í fyrri hálfleik og Reda Maamar átti meðal annars stangarskot af mjög stuttu færi.
Staðan var 2-0 í hálfleik en Stólarnir minnkuðu muninn í 2-1 strax á 2. mínútu seinni hálfleiks með hörkuskoti frá Igualada. Gestirnir gerðu sig áfram líklega og Þormar Elvarsson bjargaði meðal ananrs á línu á 57. mínútu en fimm mínútum síðar kom Kenan Turudija Selfyssingum í 3-1. Markið var af dýrari gerðinni. Þrumuskot fyrir utan teig upp í samskeytin.
Jökull Hermannsson gerði svo endanlega út um leikinn fyrir Selfyssinga með góðu skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu frá Þór Llorens. Leikurinn fjaraði út í kjölfarið en gestirnir hresstust svo nokkuð á lokakaflanum og náðu að minnka muninn í 4-2 í uppbótartímanum.
Selfoss fór aftur í toppsæti deildarinnar og hefur nú 16 stig en Leiknir Fáskrúðsfirði er í 2. sæti með 15 stig og á leik til góða. Tindastóll er áfram á botninum með 1 stig.