Selfoss aftur á toppinn

Gonzalo Zamorano skoraði og lagði upp í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir aftur í toppsæti Lengjudeildar karla í knattspyrnu eftir góðan sigur á Fjölni á heimavelli í kvöld.

Leikurinn var jafn og nokkuð opinn í fyrri hálfleik en færin voru ekki mörg. Selfyssingar hertu tökin á síðasta korterinu í fyrri hálfleik og mínútu fyrir leikhlé afgreiddi Gonzalo Zamorano boltann á einfaldann hátt upp í samskeytin eftir góðan undirbúning Valdimars Jóhannsonar.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Fjölnismenn mættu mun hressari inn í seinni hálfleikinn. Þeir áttu fljótlega stangarskot og Stefán Þór Ágústsson, markvörður Selfoss, hafði nóg að gera, en var vandanum vaxinn.

Selfyssingar féllu aftar á völlinn og gekk illa að halda boltanum þegar þeir fengu hann og Fjölnismark lá í loftinu. Til allrar lukku var það mark í eigið net, því að á 89. mínútu áttu Selfyssingar skyndisókn, þar sem Zamorano sendi boltann fyrir markið og varnarmaður Fjölnis rak tána í hann og í netið.

Selfoss er nú með 17 stig í toppsæti deildarinnar en HK er þar fyrir neðan með 15 stig og á leik til góða.

Fyrri greinElvar íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra
Næsta greinHeimaliðið sterkara í lokin