Selfyssingar tylltu sér aftur á toppinn á Lengjudeild karla í knattspyrnu með 2-1 sigri á KV á útivelli í dag.
Leikurinn fór fjörlega af stað og Ingvi Rafn Óskarsson kom boltanum í mark KV strax á annarri mínútu. Nánast í næstu sókn fengu heimamenn vítaspyrnu en Stefán Þór Ágústsson gerði sér lítið fyrir og varði hana.
KV menn voru hressari í fyrri hálfleiknum og áttu nokkrar ágætar sóknir og á 34. mínútu jöfnuðu þeir metin með glæsimarki utan af velli, í þverslána og inn.
Staðan var sanngjarnt 1-1 í hálfleik en í seinni hálfleiknum voru Selfyssingar sterkari. Gary Martin skoraði sigurmarkið þegar tíu mínútur voru til leiksloka og á lokakaflanum voru Selfyssingar nær því að bæta við marki.
Lokatölur 2-1 og Selfoss er komið aftur í toppsætið með 21 stig en HK og Fylkir, sem eru í þriðja og fjórða sæti eiga leik til góða og geta komist uppfyrir Selfoss.