Selfoss vann iðnaðarsigur á KR í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. Lokatölur urðu 2-1 en Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en síðustu tuttugu mínúturnar sóttu Selfyssingar nokkuð og áttu meðal annars þrjár tilraunir sem lentu í tréverkinu á marki KR.
Gestirnir refsuðu Selfyssingum fyrir að nýta ekki færin en á lokamínútu fyrri hálfleiks skallaði Guðmunda Brynja Óladóttir boltann laglega í netið eftir hornspyrnu.
Selfoss sótti nánast látlaust allan seinni hálfleikinn og uppskar tvö góð mörk. Á 60. mínútu átti Clara Sigurðardóttir frábæra sendingu innfyrir vörn KR á Tiffany McCarty sem skoraði af öryggi. Sigurmarkið lá í loftinu og það kom svo á 85. mínútu og var keimlíkt því fyrra. McCarty sendi þá boltann innfyrir á Dagnýju sem kláraði færið laglega.
Selfoss fór aftur í 3. sætið með þessum sigri og hefur 22 stig en KR er á botninum með 10 stig.