Selfyssingar tryggðu sér í dag sæti í úrvalsdeild karla í handbolta með 27-26 sigri á Gróttu í Set-höllinni á Selfossi. Selfoss vann því einvígið gegn Gróttu 3-1.
Það blés ekki byrlega í upphafi leiks í dag, sóknarleikur Selfoss var stirður og liðið skoraði sitt fyrsta mark þegar tæpar níu mínútur voru liðnar af leiknum. Selfyssingar hresstust eftir það og náðu að jafna leikinn en Grótta var sterkari á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 10-13 í leikhléi.
Grótta var skrefi á undan nær allan seinni hálfleikinn og leiddi með 1-2 mörkum. Þegar rúmar sjö mínútur voru eftir hafði Selfoss skorað tvö mörk í röð og jafnað 24-24. Tvö Selfossmörk í röð fylgdu á eftir og staðan orðin vænleg fyrir þá vínrauðu. Þeir fögnuðu líka af hreinræktaðri ástríðu í lokin, Grótta átti engin svör á lokakaflanum og þakið ætlaði að rifna af Set-höllinni þegar flautað var af.
Hannes Höskuldsson skoraði 7 mörk fyrir Selfoss, Tryggvi Sigurberg Traustason 5, Álvaro Mallolz og Jónas Karl Gunnlaugsson 4, Valdimar Örn Ingvarsson, Guðjón Baldur Ómarsson og Hákon Garri Gestsson 2 og Anton Breki Hjaltason 1.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 9 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 2.