Selfoss endurheimti fjórða sætið í úrvalsdeild kvenna í handbolta í dag með 27-27 jafntefli gegn ÍBV á útivelli.
Selfoss byrjaði leikinn af miklum krafti og náði mest átta marka forskoti, 7-15 þegar rúmar 20 mínútur voru liðnar. Þá kom góður kafli hjá Eyjaliðinu sem minnkaði muninn í þrjú mörk og staðan var 14-17 í hálfleik.
Það var allt í járnum í upphafi seinni hálfleiks, ÍBV saxaði niður forskot Selfoss og jafnaði 19-19 þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar. Heimakonur náðu þriggja marka forskoti í kjölfarið en Selfoss jafnaði 24-24 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Eftir það var jafnt á öllum tölum til leiksloka, Selfoss átti síðustu sókn leiksins og fékk vítakast en markvörður ÍBV varði og liðin skiptu með sér stigunum.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/1 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 4, Hulda Dís Þrastardóttir 4/2, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Sara Dröfn Richardsdóttir 3, Eva Lind Tyrfingsdóttir 2 og þær Harpa Valey Gylfadóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir og Inga Sól Björnsdóttir skoruðu 1 mark hver.
Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti frábæran leik í marki Selfoss, varði 19/1 skot og var með 41% markvörslu.
Stigið lyfti Selfyssingum aftur upp í 4. sætið, liðið er með 15 stig eins og ÍR sem er í 5. sætinu. ÍBV er í 6. sæti með 10 stig.