Selfoss átti ekkert í toppliðið

Þormar Elvarsson berst um boltann við Harald Einar Ásgrímsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu sannfærandi gegn toppliði Fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 0-4 á heimavelli.

Það er skemmst frá því að segja að Framarar réðu lögum og lofum allan tímann og sóknarleikur Selfyssinga var mjög veikburða. Fram komst í 0-1 á 11. mínútu með marki frá Fred eftir snarpa sókn og á 30. mínútu tvöföldaði Fred forskot Framara með einföldu marki eftir langan bolta inn á teiginn.

Staðan var 0-2 í hálfleik og ekki voru nema fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Albert Hafsteinsson kom Fram í 0-3. Seinni hálfleikurinn var tíðindalítill eftir þriðja markið. Framarar slógu aðeins af bensíngjöfinni en leikurinn var í öruggum höndum þeirra. Þeir innsigluðu svo 0-4 sigur á 69. mínútu með marki Guðmundar Magnússonar úr vítaspyrnu. Fleiri urðu mörkin ekki en Framarar voru líklegri til þess að bæta við en Selfyssingar að minnka muninn.

Framarar eru ósigraðir á toppi deildarinnar með 18 stig en Selfoss er í fallsæti með 4 stig eftir sex leiki.

Fyrri greinHefja gjaldtöku inn á Mýrdalssand
Næsta greinLífssögur í Listagjánni