Selfoss vann öruggan sigur á Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld. Lokatölur í Garðabænum urðu 26-30.
Jafnræði var með liðunum fyrsta korterið en þá náðu Selfyssingar fjögurra marka forskoti sem jókst enn frekar fyrir leikhlé en staðan var 12-18 í hálfleik.
Selfoss hélt forystunni örugglega í seinni hálfleiknum, munurinn varð minnstur tvö mörk þegar tæpar tíu mínútur voru eftir en þá bættu þær vínrauðu í og unnu að lokum með fjögurra marka mun.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9/2 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 6, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Hulda Dís Þrastardóttir, Sara Dröfn Richardsdóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Kristín Arna Einarsdóttir 2 og þær Eva Lind Tyrfingsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu sitt markið hvor.
Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti góðan leik í markinu, varði 15/3 skot og var með 37% markvörslu.
Með sigrinum tryggði Selfoss sér fjórða sætið í deildinni og þar með heimavallarrétt á móti ÍR í úrslitakeppninni. Þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni er Selfoss í 4. sæti með 17 stig en Stjarnan í 7. sæti með 10 stig.