Selfoss bara með í seinni hálfleik

Hrvoje Tokic og Gary Martin skoruðu báðir fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss sótti Fylki heim í Árbæinn í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Þrátt fyrir að lokatölurnar væru 4-3 var sigur Fylkis nokkuð öruggur.

Selfyssingar voru hreinlega ekki með í fyrri hálfleik. Varnarleikur liðsins var slakur og Fylkismenn skoruðu þrjú auðveld mörk, það fyrsta strax á 4. mínútu og tvö til viðbótar á lokamínútum fyrri hálfleiks.

Staðan var 3-0 í leikhléi en strax á 2. mínútu seinni hálfleiks minnkaði Gary Martin muninn með glæsimarki. Selfoss hélt áfram að sækja og á 60. mínútu kviknaði vonarneisti þegar Valdimar Jóhannsson skoraði af stuttu færi uppúr aukaspyrnu Selfyssinga. Neistinn kulnaði þó nánast strax aftur því í næstu sókn skoruðu Fylkismenn og staðan orðin 4-2.

Hvorugt liðið gerði neinar rósir síðasta hálftímann en í uppbótartímanum fengu Selfyssingar vítaspyrnu þegar brotið var á Gonzalo Zamorano. Hrvoje Tokic fór á punktinn og skoraði af öryggi upp í vinkilinn.

Selfoss er nú í 6. sæti deildarinnar með 25 stig og siglir lygnan sjó í miðjupakka deildarinnar, þegar fimm umferðir eru eftir.

Fyrri greinValgerður í 9. sæti á EM
Næsta greinHamar komst ekki í úrslit – Uppsveitir lögðu Árborg