Selfoss vann nauman útisigur á KA í Olísdeild karla í handbolta í kvöld eftir spennandi seinni hálfleik, 27-29.
Selfoss tók öll völd á vellinum strax í upphafi leiks og náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik, 7-14. Staðan var 10-16 í leikhléi.
Heimamenn voru sterkir í upphafi seinni hálfleiks og eftir að KA hafði skorað fjögur mörk í röð og minnkað muninn í 17-20 á 38. mínútu tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í taumana og tók leikhlé.
Selfoss jók forskotið í sex mörk í kjölfarið, 20-26, en KA-menn voru ekki hættir, skoruðu fjögur mörk í röð og munurinn kominn í tvö mörk, 24-26 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Munurinn var lítill á lokakaflanum, Selfoss hafði frumkvæðið en KA-menn önduðu niður um hálsmálið á þeim allan tímann.
Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu báðir 8/3 mörk fyrir Selfoss, Árni Steinn Steinþórsson 5, Guðni Ingvarsson og Haukur Þrastarson 3 og Alexander Már Egan 2.
Pawel Kiepulski varði 8 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 4.
Selfyssingar veita Haukum áfram aðhald í toppbaráttunni. Selfoss hefur 28 stig í 2. sæti en Haukar eru með 29 stig í toppsætinu og þessi tvö lið mætast einmitt í næstu umferð, á Selfossi að viku liðinni.