Selfoss tók á móti Sindra í 1. umferð C-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. Heimakonur voru sterkari allan tímann og unnu öruggan 7-0 sigur.
Selfoss komst yfir á 14. mínútu með sjálfsmarki Sindrakvenna, Brynja Líf Jónsdóttir tvöfaldaði forskot Selfoss á 24. mínútu og fjórum mínútum seinna kom Embla Dís Gunnarsdóttir Selfyssingum í 3-0.
Þannig stóðu leikar í hálfleik en seinni hálfleikurinn var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar Embla Dís var búin að skora aftur og staðan orðin 4-0.
Yfirburðir Selfyssinga héldu áfram í seinni hálfleik og á eftir fylgdu mörk frá Lovísu Guðrúnu Einarsdóttur, Guðmundu Brynju Óladóttur og varamanninum Söru Rún Auðunsdóttur, sem var að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik, tæplega 14 ára gömul.
Selfoss er á toppi riðils-1 og mætir næst ÍH á heimavelli á fimmtudagskvöld. Önnur lið í riðlinum eru Álftanes, Fjölnir og KH.