Selfoss vann góðan sigur á ÍR á útivelli í kvöld þegar keppni hófst aftur í 1. deild kvenna í körfubolta eftir jólafrí.
Leikurinn var jafn og spennandi, Selfoss leiddi nánast allan 1. leikhlutann og staðan að honum loknum var 11-14. Selfoss var áfram með frumkvæðið í 2. leikhluta en ÍR náði að minnka muninn í tvö stig undir lok hans. Selfoss skoraði hins vegar síðustu fjögur stigin í fyrri hálfleik og staðan var 23-29 í leikhléi.
Selfossliðið mætti vel stemmt inn í seinni hálfleikinn og jók forskotið í 3. leikhluta. Í upphafi 4. leikhluta var staðan 36-45 en þá tóku ÍR-ingar á sprett og þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum minnkuðu þær muninn í eitt stig, 50-51. Nær komust þær ekki, ÍR skoraði aðeins tvö stig á síðustu fjórum mínútunum, og Selfoss sigraði 52-58.
Donasja Scott var stiga- og framlagshæst hjá Selfyssingum með 19 stig og 16 fráköst. Eva Rún Dagsdóttir skilaði sömuleiðis góðu framlagi með 11 stig og 8 fráköst.
Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en ÍR er í 6. sætinu með 4 stig.
ÍR-Selfoss 52-58 (11-14, 12-15, 13-16, 16-13)
Tölfræði Selfoss: Donasja Scott 19/16 fráköst, Eva Rún Dagsdóttir 11/8 fráköst, Valdís Una Guðmannsdóttir 10, Anna Katrín Víðisdóttir 7, Vilborg Óttarsdóttir 4/8 fráköst, Þóra Auðunsdóttir 3/4 fráköst, Eva Margrét Þráinsdóttir 2/4 fráköst, Perla María Karlsdóttir 2/5 fráköst.