Selfyssingar tóku á móti toppliði Álftaness í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Eftir hörkuleik höfðu gestirnir betur, 79-91.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og leiddu 34-25 þegar 2. leikhluti var nýhafinn. Þá tóku Álftnesingar við sér, skerptu á varnarleiknum og komust yfir 40-42. Staðan í hálfleik var 45-45.
Álftanes skoraði fyrstu fjögur stigin í seinni hálfleik og það varð hlutskipti Selfyssinga að elta allan þann tíma. Munurinn jókst smátt og smátt og að lokum hafði Álftanes tólf stiga sigur.
Kennedy Aigbogun var stigahæstur Selfyssinga með 23 stig og næstur honum kom Ísak Júlíus Perdue með 21 stig og 10 stoðsendingar.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 4. sæti með 12 stig en toppsætið er í öruggum höndum Álftaness, sem er með 22 stig.
Tölfræði Selfoss: Kennedy Aigbogun 23/5 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 21/6 fráköst/10 stoðsendingar, Arnaldur Grímsson 14/5 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 10, Gerald Robinson 9/9 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 2.