Selfoss vann öruggan sigur á Aftureldingu í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í Mosfellsbænum. Lokatölur urðu 1-3.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn allan tímann og þeir komust yfir á 20. mínútu með marki frá Guðmundu Brynju Óladóttur. Skömmu áður hafði vítaspyrna frá Guðmundu farið í súginn.
Afturelding jafnaði metin á 36. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Selfossliðið óð í færum í seinni hálfleik og hefði sigur liðsins getað orðið töluvert stærri. Magdalena Reimus kom Selfyssingum aftur yfir með þrumuskoti utan af velli á 64. mínútu og Dagný Brynjarsdóttir innsiglaði svo 1-3 sigur með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Með sigrinum endurheimtu Selfyssingar þriðja sæti deildarinnar, en liðið hefur nú 29 stig og er með tveggja stiga forskot á Þór í 4. sætinu.
Breiðablik og Stjarnan eru utan seilingar í 1. og 2. sæti en Blikar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þegar liðið heimsækir Selfyssinga þann 1. september næstkomandi. Það er þó líklega ekki eitthvað sem Selfyssingar geta hugsað sér að bjóða upp á.
Næsti leikur Selfossliðsins er hins vegar bikarúrslitaleikurinn gegn Stjörnunni á Laugardalsvellinum næstkomandi laugardag.