Selfoss endurheimti toppsætið

Gonzalo Zamorano og Alexander Clive Vokes fagna marki þess síðarnefnda. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar endurheimtu toppsætið í Lengjudeild karla í knattspyrnu með stórsigri á Þrótti Vogum á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 4-0.

Selfyssingar voru sterkari allan tímann og ekki bætti það úr skák fyrir Þróttara að Andy Pew fór meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleikinn en hann er kjölfestan í varnarleik Þróttar. Þegar þar var komið við sögu hafði Selfoss komist yfir með góðu marki frá Gonzalo Zamorano sem fékk frábæra stoðsendingu frá Aroni Einarssyni.

Staðan var 1-0 í hálfleik en veislan byrjaði fyrir alvöru í seinni hálfleik. Á 64. mínútu skoraði Zamorano aftur eftir frábæra sókn og stoðsendingu frá Hrvoje Tokic. Tíu mínútum síðar geystust Selfyssingar í skyndisókn og nú var það Zamorano sem sendi boltann fyrir markið þar sem Gary Martin kom á ferðinni og lagði hann í netið.

Þar með var ekki öll sagan sögð. Hinn 17 ára gamli Alexander Clive Vokes kom inná sem varamaður á 87. mínútu og þremur mínútum síðar var hann búinn að skora frábært mark – í sínum fyrsta meistaraflokksleik á Íslandsmótinu. Alexander vann boltann sjálfur djúpt á vellinum, geystist fram og tók laglegt þríhyrningaspil við Tokic sem renndi boltanum innfyrir vörnina og Alexander kláraði færið yfirvegað í fjærhornið. Þetta var síðasti naglinn í kistu Þróttara sem áttu sér ekki viðreisnar von í kvöld.

Selfoss er með 10 stig í toppsæti deildarinnar en Fylkir, sem er með 7 stig í 2. sæti á leik til góða.

Fyrri greinRúta fór útaf Laugarvatnsvegi
Næsta greinVésteinn og Kári hlupu í Grýlupottahlaupinu