Selfoss vann mikilvægan sigur á KFG í botnbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í Garðabænum í dag, 99-104.
Selfyssingar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu 38 stig í 1. leikhluta. Staðan í hálfleik var 48-64.
Selfoss náði ekki að fylgja eftir þessu góða gengi í 3. leikhluta og KFG minnkaði muninn hratt. Staðan var orðin 77-82 í upphafi 4. leikhluta en þá jók Selfoss muninn aftur. KFG menn játuðu sig ekki sigraða og mikil spenna hljóp í leikinn á síðustu þremur mínútunum, eftir að KFG hafði breytt stöðunni í 97-98.
Lokamínúturnar voru hins vegar í þinglýstri eign Selfyssinga sem kláruðu leikinn af öryggi og sigruðu með fimm stiga mun.
Vojtéch Novák var stiga- og framlagshæstur Selfyssinga með 25 stig og 11 fráköst.
Þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni eru Selfyssingar í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Selfoss er með 12 stig í 11. sæti, tveimur stigum á eftir KV sem er í 9. sætinu og síðasta liðið inn í úrslitakeppnina í dag.
KFG-Selfoss 99-104 (22-38, 26-26, 29-18, 22-22)
Tölfræði Selfoss: Vojtéch Novák 25/11 fráköst/5 stoðsendingar, Follie Bogan 20/9 fráköst, Tristan Máni Morthens 18/4 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 16/5 stoðsendingar, Ísak Júlíus Perdue 10/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 6/6 fráköst, Gísli Steinn Hjaltason 5, Birkir Máni Sigurðarson 2, Fróði Larsen Bentsson 2.