„Selfoss er minn klúbbur“

„Ég óskaði eftir starfslokum fyrir tveimur vikum hjá Val og þá urðu strax smá þreifingar,“ segir Gunnar Rafn Borgþórsson um hvernig það kom til að hann var ráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu.

Gunnar, sem skrifaði undir tveggja ára samning í dag, lagði áherslu á það að klára sín mál á Hlíðarenda áður en hann tók starfinu á Selfossi.

Hann segir að undirbúningurinn fyrir næsta tímabili hefjist strax í dag. „Við þurfum nú að setjast niður saman liðið og fara yfir markmið og hvaða skref við getum tekið fram á við,“ segir Gunnar. „Það er fullt af hlutum sem við getum gert til að halda áfram að bæta liðið.“

Leit að nýjum leikmönnum er ekki hafin, en hún hefst fljótlega. „Vissulega þarf að stækka heildar hópinn, annan flokk og meistaraflokk. Við þurfum að fjölga leikmönnum til þess að við lendum ekki í vandræðum seinni hluta tímabils,“ segir Gunnar.

Það skiptir miklu máli fyrir Gunnar að vinna á Selfossi. „Það var svakalega stór hluti af ákvörðuninni og eiginlega ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir því að hætta í Reykjavík. Ég var að missa af miklum tíma hérna með fjölskyldunni minni,“ segir Gunnar sem er ánægður að vera kominn heim.

„Selfoss er minn klúbbur og hér á ég að vera.“

Fyrri greinBrúarsmiðjan miðlar menningu
Næsta greinEingöngu konur í bæjarráði