Umf. Selfoss fær tíu milljónir króna úr Mannvirkjasjóði KSÍ vegna framkvæmda á Selfossvelli en úthlutað var úr honum fyrir helgi.
Selfyssingar fengu hæsta styrkinn og er hann eyrnamerktur nýjum grasvelli og stúkubyggingu. Búið er að steypa upp gaflana og austurhlið stúkunnar en áætlað er að taka hana í notkun þann 25. júlí nk.
Þá fá Hamarsmenn 500.000 króna styrk til þess að byggja 150 sæta stúku við Grýluvöll í Hveragerði.
Þetta er í þriðja skipti sem úthlutað er úr sjóðnum en alls var úthlutað 31 milljón til tólf verkefna. Umsóknir í sjóðinn voru nítján.