Kvennalið Selfoss í handbolta hefur fengið liðsstyrk frá Danaveldi en markvörðurinn Henriette Østergaard hefur samið við félagið til tveggja ára.
Henriette er tvítug og kemur úr yngri flokka starfi Elitehåndbold Aalborg sem er félag í efstu deild í Danmörku.
Henriette mun leysa Katrínu Ósk Magnúsdóttur af hólmi en hún gekk í raðir Fram á dögunum.
Selfoss féll úr Olísdeildinni á síðasta keppnistímabili og mun því leika í Grill-66 deildinni á komandi vetri.