Selfoss fagnaði eftir nágrannajafntefli

Ingvi Rafn Óskarsson tók á móti bikarnum og hóf hann hátt á loft. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar tóku á móti sigurlaununum í 2. deild karla í knattspyrnu í dag eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við nágranna sína í Ægi, í leik þar sem einungis var spilað upp á heiðurinn.

Leikurinn var ákaflega bragðdaufur í fyrri hálfleik en hlutirnir fóru að gerast í seinni hálfleiknum.

Á 52. mínútu voru Ægismenn fljótir að taka aukaspyrnu fram völlinn og Ágúst Karel Magnússon renndi boltanum fyrir markið þar sem Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði með laglegu skoti. Selfoss jafnaði á 69. mínútu þegar Ingvi Rafn Óskarsson vann boltann á eigin vallarhelmingi og sendi hann innfyrir Ægisvörnina á Gonzalo Zamorano sem skoraði af öryggi.

Ægismenn héldu áfram að hafa yfirhöndina og voru aftur fyrri til að skora. Toma Ouchagelov tók þá skemmtilegan snúning fyrir framan vítateig Selfoss, lék á tvo varnarmenn og sendi boltann innfyrir á Ágúst Karel sem renndi boltanum í netið framhjá Robert Blakala.

Allt stefndi í sigur Ægis en á 88. mínútu braut Lazar Cordasic klaufalega á Valdimar Jóhannssyni, inni í vítateig Ægis, og Selfyssingar fengu vítaspyrnu. Úr henni jafnaði Zamorano með sínu sautjánda marki fyrir Selfoss í sumar.

Í leikslok voru flugeldar og mikil fagnaðarlæti þar sem Selfyssingar tóku á móti sigurlaununum í deildinni. Selfyssingar enduðu langefstir með 51 stig en Völsungur frá Húsavík fylgir þeim upp í 1. deildina. Völsungur varð í 2. sæti með 43 stig. Ægismenn sigla lygnan sjó í 8. sæti deildarinnar með 25 stig.

Það var góð stemning á Selfossvelli í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Spikfeitar rollur sem hugsa bara um að bíta“
Næsta grein„Ég var í öruggum höndum hjá þessum drengjum“