Selfoss fallið í 2. deild

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu er fallið niður í 2. deild eftir 3-1 tap gegn Gróttu á útivelli í kvöld. Liðið hefur fallið niður um tvær deildir á tveimur árum.

Það blés ansi hraustlega á Seltjarnarnesinu í kvöld og Grótta var með vindinn í bakið í fyrri hálfleiknum. Vindurinn setti sitt mark á leikinn, sóknarleikur liðanna gekk illa og færin voru fá. Grótta komst yfir á 16. mínútu eftir innkast frá hægri þar sem boltinn barst alla leið á Lilju Lív Margrétardóttur sem var óvölduð á fjærstöng og skoraði örugglega. Á 42. mínútu skoraði svo Lovísa Scheving með óverjandi skoti eftir hornspyrnu, 2-0 í hálfleik.

Taflið snerist í seinni hálfleiknum. Selfoss var með vindinn í bakið og meira með boltann en gekk afleitlega að skapa sér færi. Liðið fékk einungis tvö hálffæri eftir föst leikatriði en Grótta komst í 3-0, gegn gangi leiksins á 71. mínútu þegar Díana Ásta Guðmundsdóttir slapp innfyrir í skyndisókn.

Eva Lind Elíasdóttir fékk besta færi Selfoss á 88. mínútu og skoraði úr því af miklu öryggi. Hún fékk stoðsendinguna innfyrir alla leið frá Karen Rós Torfadóttur í marki Selfoss, yfir allan völlinn.

Lokatölur 3-1 og Selfoss situr í 9. sæti deildarinnar með 14 stig, sex stigum á eftir Grindavík sem er í öruggu sæti þegar ein umferð er eftir. Selfoss mun því leika í neðstu deild Íslandsmótsins á næsta tímabili.

Fyrri greinSkaftárhlaupi að ljúka
Næsta greinGul viðvörun vegna rigningar