Selfoss fékk að kenna á hamri Þórs

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var ekki ferð til fjár, heimsókn Selfyssinga norður fyrir heiðar í kvöld, þar sem þeir mættu Þór Akureyri í 1. deild karla í handbolta. Þórsarar reyndust sterkari og sigruðu 34-26.

Þór skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Selfoss jafnaði 5-5 en Þórsarar tóku öll völd eftir það og náðu mest sex marka forskoti. Staðan í hálfleik var 20-14 og varnarleikur Selfyssinga ekki upp á marga fiska.

Þór náði átta marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks áður en Selfyssingar tóku við sér og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk þegar tæpt korter var eftir af leiknum. Nær komust þeir vínrauðu ekki, Þórsarar hömruðu járnið á meðan það var heitt á lokakaflanum og sigruðu að lokum með átta marka mun.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Álvaro Mallols skoraði 5, Elvar Elí Hallgrímsson 4, Jónas Karl Gunnlaugsson 3, Hákon Garri Gestsson 2 og þeir Tryggvi Sigurberg Traustason, Anton Breki Hjaltason, Guðjón Baldur Ómarsson, Skarphéðinn Steinn Sveinsson og Ísak Kristinn Jónsson skoruðu allir 1 mark. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 15 skot í marki Selfoss.

Eftir fjórar umferðir eru Selfyssingar í 6. sæti með 4 stig en Þór er í 2. sæti með 6 stig. Næsti leikur Selfoss er heimaleikur gegn HK2 á laugardaginn klukkan 14.

Fyrri greinSöfnuðu 360.000 kr. fyrir Píeta samtökin
Næsta greinSelfoss mætir Fram aftur