Selfoss fékk Fylki í undanúrslitum

Selfoss mætir Fylki á útivelli í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu en dregið var í hádeginu í dag.

Selfoss vann frækinn sigur á ÍBV í 8-liða úrslitunum á laugardag þar sem grípa þurfti til vítaspyrnukeppni en staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu. Alexa Gaul, markvörður Selfoss, varði tvær vítaspyrnur og tryggði Selfyssingum 5-3 sigur.

Leikur Fylkis og Selfoss verður á Fylkisvellinum í Árbæ 25. eða 26. júlí næstkomandi en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Breiðablik og Stjarnan.

Selfoss var eina liðið í pottinum í dag sem hefur aldrei spilað í undanúrslitum bikarsins.

Fylkir er í 3. sæti Pepsi-deildarinnar en Selfoss í 7. sæti. Liðin tvö mætast einmitt í næstu umferð deildarinnar, á Fylkisvellinum annað kvöld.

Fyrri greinFjórhjólamaður slasaðist á Búrfelli
Næsta greinStyrktu börn í Suður-Súdan