Selfoss fékk skell á útivelli

Magdalena Reimus komst næst því að skora fyrir Selfoss. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar fengu heldur betur skell þegar liðið mætti til leiks á nýjan leik í Pepsi-deild kvenna í kvöld en liðið tapaði 8-0 gegn Val á útivelli.

Eins og tölurnar gefa til kynna sóttu Valskonur stíft að marki Selfoss og þær vínrauðu máttu hafa sig allar við að halda undan pressunni. Fyrsta mark Vals kom á 25. mínútu en tíu mínútum síðar var Magdalena Reimus nálægt því að jafna þegar hún skaut í slánna úr aukaspyrnu.

Selfyssingar fengu nokkur hálffæri í fyrri hálfleik en ógnuðu lítið í þeim seinni. Staðan var orðin 3-0 í leikhléi og Valur bætti svo við fimm mörkum í seinni hálfleik, þremur á fjögurra mínútna kafla um miðjan hálfleikinn og tveimur á tveggja mínútna kafla undir lokin.

Fyrri grein„Einn mikilvægasti tengipunktur landsnetsins“
Næsta greinÁrborg í úrslitaleikinn