Selfoss féll á markahlutfalli

Valdimar Jóhannsson með boltann í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru fallnir úr Lengjudeild karla í knattspyrnu eftir 3 ára veru í deildinni. Þeir töpuðu 1-2 gegn Vestra á heimavelli í dag en þurftu að ná jafntefli til þess að bjarga sér frá falli.

Vestramenn yfirspiluðu Selfyssinga á fyrsta korterinu og skoruðu tvívegis. Selfyssingar sóttu í sig veðrið í kjölfarið en náðu ekki að skapa nein færi þrátt fyrir fjölda hornspyrna og aukaspyrna í kringum vítateig Vestra.

Staðan var 0-2 í leikhléi en hún breyttist strax á 3. mínútu seinni hálfleiks þegar Valdimar Jóhannsson skallaði boltann í netið af stuttufæri. Selfyssingar höfðu 40 mínútur til að finna jöfnunarmarkið og sóttu stíft á köflum. Besta færið fékk Aron Einarsson á 81. mínútu þegar hann fékk sendingu inn á vítateiginn í galopnu færi en boltinn stoppaði í polli og Aron rétt missti af honum.

Selfyssingar eygðu vonarglætu þegar fjórar mínútur voru eftir en þá komst Fjölnir í 4-0 á móti Njarðvík. Eitt mark frá Fjölni til viðbótar hefði bjargað Selfyssingum en það kom ekki og Selfyssingar féllu því á lakara markahlutfalli en Njarðvík, svo munaði einu marki.

Selfoss varð í 11. sæti með 23 stig og -12 mörk en Njarðvík í 10. sæti með jafnmörg stig og -11 mörk. Það verður því hlutskipti Selfyssinga að fylgja nágrönnum sínum úr Þorlákshöfn niður í 2. deildina. Ægismenn voru löngu fallnir en þeir töpuðu 5-0 gegn Leikni á Þorlákshafnarvelli í dag.

Fyrri grein„Þetta snýst bara um okkur“
Næsta greinKvöddu Bestu deildina með tapi