Selfoss flaug í 16-liða úrslitin

Vilhelm Freyr Steindórsson skoraði 6 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit í bikarkeppni karla í handbolta eftir öruggan sigur á ÍH í Kaplakrika í kvöld.

Jón Þórarinn Þorsteinsson lokaði rammanum hjá Selfyssingum í upphafi leiks. Þeir komust í 0-3 en ÍH jafnaði 4-4. Eftir það tóku Selfyssingar öll völd á vellinum, náðu mest átta marka forskoti og leiddu í leikhléi, 12-20.

ÍH saxaði á forskotið í upphafi seinni hálfleiks en þá gerði Selfoss áhlaup og náði ellefu marka forskoti, 19-30. Þar með var björninn unninn en aðeins dró saman með liðunum á lokakaflanum. Sigur Selfoss var þó aldrei í hættu og lokatölur urðu 33-38.

Hannes Höskuldsson og Vilhelm Freyr Steindórsson skoruðu báðir 6 mörk fyrir Selfoss, Álvaro Mallols og Anton Breki Hjaltason 5, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Hákon Garri Gestsson og Jason Dagur Þórisson 3, Dagbjartur Máni Björnsson og Skarphéðinn Steinn Sveinsson 2 og þeir Jónas Karl Gunnlaugsson og Árni Ísleifsson skoruðu 1 mark hvor.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 13 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 3.

Selfoss mætir Íslandsmeisturum FH í 16-liða úrslitunum og fer leikurinn fram á Selfossi þann 17. nóvember.

Fyrri greinNaumur sigur Þórsara á heimavelli
Næsta greinGarðyrkja og myndlist í hversdeginum