Selfoss valtaði yfir Stjörnuna þegar liðin mættust í Garðabænum í kvöld í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta.
Það var aldrei spurning hvernig færi í kvöld, Selfoss hafði algjöra yfirburði í leiknum, skoraði fyrstu fjögur mörkin og leiddi með ellefu mörkum í leikhléi, 4-15.
Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik, Selfoss hleypti Stjörnunni aldrei inn í leikinn og sigraði að lokum með sextán marka mun, 16-32.
Tólf leikmenn skoruðu og markverðirnir góðir
Nökkvi Dan Elliðason var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 4, Hannes Höskuldsson, Guðjón Baldur Ómarsson, Atli Ævar Ingólfsson og Hergeir Grímsson 3, Haukur Þrastarson 3/1, Guðni Ingvarsson, Alexander Egan og Árni Steinn Steinþórsson 2, Sverrir Pálsson 1 og Ari Sverrir Magnússon 1/1.
Markverðir Selfoss vörðu vel í leiknum. Sölvi Ólafsson var með 14 skot varin og 56% markvörslu og Pawel Kiepulski var með 4 skot varin og 50% markvörslu.
Selfoss og Haukar jöfn að stigum
Selfoss varð í 2. sæti í deildinni með 34 stig, jafn mörg stig og deildarmeistarar Hauka en Haukar höfðu betur í innbyrðis viðureignum. Selfoss mætir ÍR í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins.