Selfoss og Breiðablik skildu jöfn 1-1 í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.
Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi, bæði lið fengu ákjósanleg færi en tókst ekki að skora.
Blikar áttu skalla í þverslá í upphafi seinni hálfleiks og skömmu síðar komust þeir yfir með marki frá Thelmu Þrastardóttir.
Forysta Blika varði þó ekki nema í þrjár mínútur því á 63. mínútu skallaði Dagný Brynjarsdóttir boltann í netið eftir að Eva Lind Elíasdóttir hafði átt skot í samskeytin, þaðan sem boltinn barst út í teiginn.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en bæði lið fengu dauðafæri á lokamínútunum þar sem markmennirnir björguðu málunum. Fyrst varði Sonný Þráinsdóttir frá Donna-Kay Henry og í uppbótartíma bjargaði Chanté Sandiford glæsilega þegar Thelma slapp ein í gegn hinu megin.
Niðurstaðan 1-1 jafntefli og Selfyssingar urðu þar með fyrsta liðið til að skora mark hjá Blikum síðan í maí. Með sigri hefði Breiðablik getað tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en Selfyssingar höfðu engan áhuga á því að upplifa meistarafögnuð andstæðinga sinna með tveggja daga millibili.
Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 30 stig, jafnmörg stig og Þór/KA en norðankonur hafa hagstæðara markahlutfall.