Ungmennalið Selfoss lék sinn fyrsta leik í 1. deild karla í handbolta í dag þegar liðið heimsótti HK.
Það var jafnt á öllum tölum upp í 7-7 um miðjan fyrri hálfleikinn en þá skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og leiddu það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi var 12-13.
Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi. Selfoss spilaði góða vörn lengst af en HK spilaði stærstan hluta leiksins sjö á móti sex í sókninni. Á lokakaflanum gerðu Selfyssingar sig hins vegar seka um ódýr mistök, sem má skrifa á reynsluleysi þessa unga og efnilega liðs. HK náði að snúa leiknum sér í vil á síðustu fimm mínútunum og sigruðu 27-25.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Arnór Logi Hákonarson skoraði 4, Vilhelm Freyr Steindórsson 3 og þeir Tryggvi Þórisson, Gunnar Flosi Grétarsson, Grímur Bjarndal Einarsson og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu allir 2 mörk.
Alexander Hrafnkelsson varði 7/1 skot í marki Selfoss og skoraði 1 mark. Alexander var með 21% markvörslu.