Kvennalið Selfoss tapaði 28-20 þegar liðið mætti Fram í Olísdeild kvenna í handbolta á útivelli í kvöld.
Eftir jafnar upphafsmínútur náðu Selfyssingar frumkvæðinu og leiddu 7-9 þegar tæpar átján mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik. Framarar jöfnuðu 11-11 þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum en Selfoss leiddi með einu marki í leikhléi, 12-13.
Framliðið mætti hins vegar mun ákveðnara inn í seinni hálfleikinn og eftir rúmlega sex mínútna leik var staðan orðin 18-14. Eftir það leiddu Framarar með fjórum mörkum lengst af en heimakonur bættu heldur í á síðustu tíu mínútunum og að lokum skildu átta mörk liðin að, 28-20.
Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 5, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 3, Elva Rún Óskarsdóttir 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir, Agnes Sigurðardóttir, Arna Kristín Einarsdóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Viviann Petersen varði 9 skot í marki Selfoss og var með 25% markvörslu.
Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar með 5 stig.