Selfoss gerði góða hluti á Partille Cup

4. flokkur Selfoss í handbolta hélt fyrir skömmu á Partille Cup mótið í Svíþjóð og náði góðum árangri.

Mótið er lang stærsta handboltamót heims og voru tæplega 20.000 þátttakendur þetta árið. Frá Selfoss fóru átján strákar á mótið og náði 16 ára liðið að komast í 8-liða úrslitum á mótinu eða lengst íslenskra liða í þeim aldursflokki en liðið var einungus hársbreidd frá því að komast enn lengra. Í flokki 16 ára voru 82 lið skráð til leiks.

Selfoss fór með 16 ára lið og 15 ára lið á mótið. 16 ára liðið endaði í öðru sæti í riðli sínum og urðu einungis á eftir Ystad frá Svíþjóð sem sigraði svo mótið að lokum. Í 32-liða úrslitum mættu strákarnir Dukla frá Prag og slógu þá út 22-9 í ótrúlegum leik þar sem liðið steig vart feilspor. Í 16-liða úrslitum mættu þeir svo Lugi frá Svíþjóð og sigruðu þar með tveimur mörkum 17-15. Í 8-liða úrslitum féll liðið út gegn Savehof 12-14 en það lið vann svo undanúrslitaleikinn auðveldlega og tapaði svo í úrslitaleiknum.

15 ára liðið átti nokkuð erfitt uppdráttar en þrír lykilleikmenn í þeim árgangi spiluðu með eldra liðinu og hafði það nokkuð að segja fyrir liðið sem lék á móti öflugum jafnöldrum. Liðið lenti í erfiðum riðli og náði ekki að sigra þar. Fjórir af sex leikjum voru jafnir og vantaði þar herslumuninn uppá. Í umspilinu féll liðið svo út fyrir Malik frá Noregi.

Mótið sjálft fer fram í Gautaborg en það er einstaklega vel heppnað. Fyrir utan keppni er gríðarlega mikið fyrir leikmenn að gera meðan á móti stendur og skemmtunin þar alls ekki síðri en á vellinum. Selfyssingar fóru í Liseberg tívolíið og Skara Summerland vatnsrennibrautargarðinni svo eitthað sé nefnt. Ferðin var afar vel heppnuð og vilja Selfyssingar koma þökkum áleiðis til allra sem hjálpuðu þeim við að komast á þetta magnaða handboltamót.

Fyrri greinHafsteinn og Kristján til dönsku meistaranna
Næsta greinKvartað til lögreglu vegna hávaða í borholu