Selfoss og Hrunamenn áttust við í hörkuleik í 1. deild karla í körfubolta á Selfossi í kvöld. Framlengingu þurfti til að útkljá sigurvegarann en Selfyssingar höfðu betur, 89-85.
Selfoss byrjaði betur í leiknum en undir lok 1. leikhluta small vörnin hjá Hrunamönnum og þeir komust yfir. Munurinn var hárfínn og í hálfleik var staðan 41-44.
Hrunamenn bættu í þegar 3. leikhluti hófst og náðu sjö stiga forskoti en Selfyssingar komu jafnharðan til baka. Óðinn Freyr Árnason hélt Hrunamönnum á floti í þessum leikhluta en Selfyssingar voru sterkir í skotum utan teigs og komust yfir, 63-60.
Í 4. leikhluta voru Selfyssingar komnir með 10 stiga forskot, 70-60, en þá tók Corey Taite af skarið og raðaði inn þrettán stigum á stuttum tíma. Óðinn Freyr jafnaði 78-78 fyrir Hrunamenn þegar rúm mínúta var eftir en hvorugu liðinu tókst að tryggja sér sigurinn í kjölfarið og Selfyssingar klikkuðu meðal annars á fjórum vítaskotum sem öll hefðu tryggt sigurinn.
Í framlengingunni geigaði hins vegar varla skot hjá heimamönnum sem voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu að lokum með fjögurra stiga mun.
Taite með besta framlagið
Kristijan Vladovic var stigahæstur Selfyssinga með flottar tölur; 22 stig, 7 stoðsendingar og 7 fráköst. Terrence Motley var einnig gríðarsterkur með 17 stig og 11 fráköst.
Hjá Hrunamönnum var Corey Taite allt í öllu með 32 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Karlo Lebo skoraði 20 stig og tók 8 fráköst og Óðinn Freyr skoraði 19 stig.
Þetta var annar sigur Selfyssinga í deildinni í vetur en þeir sitja þó áfram í botnsæti deildarinnar með 4 stig. Hrunamenn eru einu sæti ofar með jafnmörg stig.
Tölfræði Selfoss: Kristijan Vladovic 22/7 fráköst/7 stoðsendingar, Terrence Motley 17/11 fráköst, Sveinn Búi Birgisson 15/3 varin skot, Kennedy Aigbogun 15/7 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 6, Arnór Bjarki Eyþórsson 6, Aljaz Vidmar 4, Sigmar Jóhann Bjarnason 2/7 fráköst, Ari Gylfason 2.
Tölfræði Hrunamanna: Corey Taite 32/9 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Karlo Lebo 20/8 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 19/5 fráköst, Eyþór Orri Árnason 6, Yngvi Freyr Óskarsson 6/8 fráköst, Orri Ellertsson 2.