Selfoss – Haukar 3-0

Selfyssingar unnu góðan 3-0 sigur á Haukum í Pepsi deild karla á Selfossvelli í kvöld.

Guðmundur Benediktsson, þjálfari, gerði eina breytingu á liðinu sem lagði KR á sunnudag. Sú breyting er óhjákvæmileg því Agnar Bragi Magnússon er í leikbanni en Kjartan Sigurðsson kemur inn í byrjunarliðið. Athygli vekur að annar læknirinn í liðsstjórninni er Þorsteinn Pálsson, tannlæknir. Við vonum að hann þurfi ekki að beita sérfræðiþekkingu sinni í kvöld.

Fyrri hálfleikur: Fyrstu 20 mínúturnar hafa verið ákaflega tíðindalitlar. Haukar hafa verið meira með boltann og Kristinn Jakobsson hefur verið mjög hljóðlátur á dómaraflautunni. Baráttan fer fram í stúkunni þar sem Skjálftamenn hafa mun betur gegn Hersveit Hauka.
Guðmundur Þórarinsson fékk dauðafæri á 28. mínútu eftir að hann slapp inn á vítateig en Daði Lárusson varði frá honum. Guðmundur hefði getað pikkað boltanum á Sævar Þór sem stóð fyrir opnu marki en enginn álasar honum fyrir marktilraunina – nema Sævar.
Annars var fátt um færi í fyrri hálfleik. Andri Freyr Björnsson átti fyrirgjöf á 43. mínútu sem datt ofan á þverslána en það hefði þurft magnaða eðlisfræði til að sú sending hefði endað í netinu.
Annars hefur leikurinn verið nokkuð fjörugur og vel spilaður en varnir beggja liða eru harðlokaðar.

Seinni hálfleikur: Selfyssingar voru mun ákveðnari framan af fyrri hálfleik en fyrsta markið lét á sér standa. Á 67. mínútu fékk Sævar Þór sendingu upp vinstri kantinn. Hann renndi honum fyrir á Arilíus sem skaut í stöngina og þaðan fór boltinn í Daða markmann og í markið. Gott mark hjá Arilíus en Kristinn Jakobsson skrifaði það sem sjálfsmark.
Eftir markið tóku Selfyssingar öll völd á vellinum. Færin voru þó ekki mörg en Jón Daði Böðvarsson og Jón Guðbrandsson bættu við mörkum á 84. og 87. mínútu. Mark Guðbrands var sérlega laglegt en hann fékk boltann á fjærstöng eftir aukaspyrnu Guðmundar Þórarinssonar og lagði hann af yfirvegun í netið.

Eftir leik: Ónotaðir varamenn taka spretti og skokk á vellinum. Einar Ottó Antonsson ber sig mjög fagmannlega að og það styttist vonandi í að aðdáendur Selfoss sjái hann á fullu í leik. Óskar Sigurðsson, formaður, týnir rusl ásamt fleira góðu fólki. Svona eiga formenn að vera.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Arilíus Marteinsson (Davíð Birgisson +86), Kjartan Sigurðsson, Andri Freyr Björnsson, Ingólfur Þórarinsson, Sævar Þór Gíslason (Ingþór Jóhann Guðmundsson +81), Guðmundur Þórarinsson, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson (Ingi Rafn Ingibergsson +89), Jón Guðbrandsson.

Byrjunarlið Hauka: Daði Lárusson, Kristján Ómar Björnsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Hilmar Rafn Emilsson, Hilmar Trausti Arnarsson, Hilmar Geir Eiðsson, Arnar Bergmann Gunnlaugsson, Gunnar Ormslev Ásgeirsson (Kristján Óli Sigurðsson +81), Daníel Einarsson, Pétur Á. Sæmundsson, Grétar Atli Grétarsson (Úlfar Hrafn Pálsson +71).

Fyrri greinSundlaugarnar opnar alla Hvítasunnuna
Næsta grein„Sjálfsmark er bara kjaftæði“