Selfoss náði í mikilvægt stig þegar liðið mætti HK á útivelli í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Lokatölur urðu 25-25 og Selfoss er enn í 8. sætinu sem gefur síðasta farmiðann í úrslitakeppni deildarinnar.
Selfoss náði fjögurra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik, 3-7, en HK náði að jafna fyrir leikhlé, 10-10.
Selfyssingar voru skrefinu á undan í seinni hálfleik en munurinn var aldrei meiri en 1-2 mörk. HK breytti stöðunni úr 23-24 í 25-24 þegar skammt var eftir en Selfoss skoraði síðasta mark leiksins og tryggði sér mikilvægt stig.
Carmen Palamariu var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Elena Birgisdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu 4, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Kristrún Steinþórsdóttir og Þuríður Guðjónsdóttir 2 og þær Hildur Öder Einarsdóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.