Selfoss tók á móti nýstofnuðu liði Handknattleiksbandalags Heimaeyjar í 1. deild karla í handbolta í dag. Eftir hörkuleik þar sem sóknarleikurinn var í forgangi vann Selfoss öruggan sigur á Vestmannaeyingunum, 39-34.
Eyjamenn byrjuðu af miklum krafti og komust í 2-6 á fyrstu fjórum mínútunum. Selfyssingar svöruðu þá fyrir sig með átta mörkum í röð, komust í 10-6 og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Munurinn varð mestur sjö mörk í fyrri hálfleik en HBH klóraði í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 21-18 í leikhléi.
Selfoss leiddi með 4-6 mörkum framan af seinni hálfleik en þegar tíu mínútur voru eftir fór að hitna í kolunum og Eyjamenn minnkuðu muninn í tvö mörk, 32-30. Selfyssingar bættu þá í og héldu HBH í öruggri fjarlægð allt til leiksloka.
Tryggvi Sigurberg Traustason og Guðjón Baldur Ómarsson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Álvaro Mallols skoraði 6, Valdimar Örn Ingvarsson og Hannes Höskuldsson 4, Patrekur Þór Öfjörð 3, Jónas Karl Gunnlaugsson 2 og þeir Vilhelm Steindórsson, Elvar Elí Hallgrímsson, Jason Dagur Þórisson og Hákon Garri Gestsson skoruðu allir 1 mark.
Markmennirnir Alexander Hrafnkelsson og Jón Þórarinn Þorsteinsson skoruðu báðir 1 mark, Alexander varði 8 skot og Jón Þórarinn 5.