Selfoss hleypir lífi í toppbaráttuna

Í sumar verða 22 leikir í Lengjudeildinni í beinni útsendingu á Hringbraut. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sannfærandi sigur á toppliði Leiknis frá Fáskrúðsfirði á Selfossvelli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag.

Selfyssingar voru sterkari allan leikinn en náðu aðeins að skapa sér nokkur hálffæri í fyrri hálfleik. Gestirnir fengu eitt gott færi en annars átti Þorkell Ingi Sigurðsson nokkuð náðugan dag í marki Selfoss í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið.

Staðan var 0-0 í hálfleik en Selfyssingar voru komnir yfir eftir tólf sekúndur í seinni hálfleik með skallamarki af stuttu færi frá Kenan Turudija. Selfoss hélt toppliðinu algjörlega í skefjum í seinni hálfleik og gestirnir komust varla framyfir miðju á löngum köflum. 

Þór Llorens Þórðarson tryggði Selfyssingum svo 2-0 sigur með glæsilegu skoti einni mínútu fyrir leikslok og þeir vínrauðu fögnuðu hraustlega í leikslok.

Þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni hefur Selfoss 32 stig í 3. sæti deildarinnar og er tveimur stigum á eftir Leikni sem er í 2. sætinu og fjórum stigum á eftir Vestra sem situr í toppsætinu.

Fyrri greinÁlfrún tvíbætti Íslandsmetið í sleggjukasti
Næsta greinBikarmeistararnir upp í 3. sætið