Selfoss hljóp yfir Stjörnuna

Perla Ruth Albertsdóttir. Ljósmynd/Sigurður Ástgeirsson

Selfoss fékk Stjörnuna í heimsókn í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld. Eftir hraðan og skemmtilegan leik hafði Selfoss öruggan sigur, 27-22.

Jafn­ræði var með liðunum fyrstu tíu mín­út­urn­ar en í stöðunni 3-3 kom 6-1 kafli hjá Selfyssingum sem hreinlega hlupu yfir Stjörnuna og refsuðu þeim fyrir hver mistök. Selfoss hélt forystunni fram að hálfleik en staðan var 15-10 í leikhléi.

Stjarnan stoppaði í götin í vörninni í seinni hálfleiknum og tóku Kötlu Maríu Magnúsdóttur úr umferð. Það hægði verulega á sóknarleik Selfoss og Stjarnan minnkaði muninn í 22-20 þegar átta mínútur voru eftir. Selfoss setti hins vegar aftur í gírinn á lokamínútunum, þær skoruðu síðustu þrjú mörkin í leiknum og unnu öruggan sigur.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Katla María Magnúsdóttir og Harpa Valey Gylfadóttir skoruðu 5, Arna Kristín Einarsdóttir og Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 4 og Hulda Dís Þrastardóttir 1. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti góðan leik í marki Selfoss og varði 14 skot.

Eftir þrettán umferðir er Selfoss í 4. sæti deildarinnar með 13 stig og Stjarnan er í 5. sæti með 10 stig.

Fyrri greinAð hnykla heilavöðvana er besta líkamsræktin
Næsta greinBardagi til síðustu sekúndu