Selfyssingar lentu í vandræðum með ÍR, topplið 1. deildar karla, þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta í Austurbergi í Breiðholti í kvöld.
Selfossliðið var ákaflega sannfærandi í upphafi leiks og leiddi 5-14 þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður. Þá kom 6-2 kafli hjá ÍR-ingum, sem minnkuðu muninn svo enn frekar fram að hálfleik en staðan var 15-18 í leikhléi.
Selfyssingar náðu fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks, 15-20, en urðu kærulausir í kjölfarið og ÍR jafnaði, 25-25. Selfyssingar héldu hins vegar haus á lokakaflanum og sigruðu að lokum 29-33.
Einar Sverrisson fór mikinn í leiknum skoraði 11/5 mörk og Richard Sæþór Sigurðsson kom næstur með 6 mörk. Tryggvi Þórisson skoraði 5, Ísak Gústafsson og Hergeir Grímsson 4, Sölvi Svavarsson 2 og Karolis Stropus skoraði 1 mark.
Vilius Rasimas var virkilega traustur í markinu, varði 21/1 skot og var með 42% markvörslu.
Búið er að draga í 8-liða úrslitin enda fara þau fram næstkomandi laugardag. Þá mun Selfoss væntanlega mæta ÍBV í SET-höllinni, en ÍBV leikur gegn Kórdrengjum í 16-liða úrslitunum annað kvöld.