Selfoss sigraði ÍBV í leik um bronsið á fyrsta Ragnarsmóti kvenna í handbolta sem lauk í Vallaskóla í gær.
Selfoss vann 33-30 sigur á ÍBV í leik um 3. sætið en staðan var 17-16 í hálfleik. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Carmen Palamariu skoraði 8, Adina Ghidoarca 6, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Kara Rún Árnadóttir, Margrét Katrín Jónsdóttir og Sigrún Arna Brynjarsdóttir 2 og Elena Birgisdóttir 1.
HK sigraði FH í leik um 5. sætið, 19-16 og Fram tryggði sér sigur á mótinu með 19-13 sigri á Gróttu.
Að loknu móti voru veittar viðurkenningar til bestu einstaklinganna á mótinu. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Selfossi, var valin besti leikmaðurinn en hún var einnig markahæst.
Guðrún Ósk Maríasdóttir úr Fram var besti markvörðurinn og Hildur Þorgeirsdóttir, liðsfélagi hennar, var besti sóknarmaðurinn. Sunna María Einarsdóttir úr Gróttu var valin besti varnarmaðurinn.