Selfyssingar töpuðu fyrir Aftureldingu í leiknum um 5. sætið á Ragnarsmótinu í handbolta í Vallaskóla á Selfossi í dag.
Lokatölur leiksins urðu 27-31 en Afturelding leiddi í hálfleik, 14-16.
Sverrir Pálsson var markahæstur Selfyssinga með níu mörk, Egidijus Mikalonis skoraði sex, Jóhann Erlingsson 3, Andri Már Sveinsson, Gunnar Ingi Jónsson og Árni Geir Hilmarsson skoruðu allir tvö mörk og þeir Hergeir Grímsson, Daníel Arnar Róbertsson og Hörður Másson skoruðu allir eitt mark.
Hjá Aftureldingu var Elvar Ásgeirsson markahæstur með sjö mörk.
Grótta vann HK í spennandi leik um 3. sætið, 31-32, en HK hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 19-16. Þorgeir Davíðsson var markahæstur Gróttumanna með sex mörk en Leó Snær Pétursson fór á kostum í liði HK og skoraði tólf mörk.
Valur vann sigur á Stjörnunni í úrslitaleik mótsins, 33-29. Finnur Ingi Stefánsson, Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu allir sex mörk fyrir Val en Sverrir Eyjólfsson var markahæstur Stjörnumanna með tíu mörk.
Í lok móts voru veitt verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið en það var Brynja systir Ragnars sem sá um það ásamt dætrum sínum. Einnig voru veitt einstaklingsverðlaun en þar var Guðmundur Hólmgeirsson úr Val valinn leikmaður mótsins og besti varnarmaðurinn. Besti sóknarmaðurinn var Starri Friðriksson Stjörnunni og Besti markmaðurinn var Hlynur Morthens úr Val. Selfyssingurinn Sverrir Pálsson var markahæstur með 21 mark.