Selfoss í 8-liða úrslit eftir magnaðan sigur

Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit Símabikars karla í handbolta eftir magnaðan sigur á úrvalsdeildarliði Vals, 28-27, á Selfossi í kvöld. Markvörðurinn Helgi Hlynsson var besti maður vallarins.

Valsmenn voru skrefi á undan á upphafsmínútunum en varnarleikurinn var í hávegum hafður í fyrri hálfleik og leikurinn í jáfnum. Valur leiddi 6-8 þegar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum en Selfoss svaraði með 4-1 áhlaupi og komst yfir, 10-9. Selfyssingar gátu þakkað markverðinum Helga Hlynssyni fyrir að vera ennþá inni í leiknum á þessum tímapunkti en hann átti stórleik í fyrri hálfleik og varði þá átján skot. Staðan var 12-12 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var æsispennandi og munurinn var aldrei meiri en tvö mörk þar sem liðin skiptust á um að halda forystunni. Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 27-26, Selfyssingum í vil en á lokakaflanum hélst Selfyssingum illa á boltanum í sókninni en Helgi hélt áfram að vera í stuði í markinu og varði meðal annars tvö síðustu skot Valsmanna, það síðara á lokasekúndu leiksins og tryggði hann þar með Selfyssingum farmiðann í 8-liða úrslitin.

Selfyssingar voru hreint út sagt frábærir í kvöld og ekki veikan blett að finna á liðinu. Þetta var svo sannarlega sigur liðsheildarinnar en það þarf þó ekki neinn geimvísindamann til þess að velja mann leiksins. Það var Helgi Hlynsson sem varði 31 skot í marki Selfoss og var með 53% markvörslu. Vörnin hélt þokkalega lengst af en gaf eftir á kafla í síðari hálfleik. Einar Sverrisson leiddi liðið í sókinni í fyrri hálfleik með mögnuðum mörkum. Valsmenn settu hann í gjörgæslu í seinni hálfleik en þá tók Matthías Örn Halldórsson við kyndlinum og raðaði inn mörkunum.

Matthías var markahæstur með 7 mörk, Einar skoraði 6, Einar Pétur Pétursson 5, Hörður Bjarnarson 4 og þeir Gunnar Ingi Jónsson, Jóhann Gunnarsson og Hörður Másson skoruðu allir 2 mörk.

Fyrri greinAuglýst eftir framboðum
Næsta greinGlæsilegur árangur Björgvins Karls